Litluþrepin

Í Ánauð

Leiðin til velgengni.
Að taka út þroskann. Litlu þrepin.

Höfundur: Garðar Björgvinsson

Að biðja um.

Fyrsta verkfærið sem við tökum í notkun varðandi fjármál heitir; „að biðja um“. Mjög mikilvægt verkfæri. Það er stöðugt í notkun. Við erum að biðja um eitthvað allt lífið. Sem börn biðjum við um nammi, seinna þarf að biðja um vinnu, biðja um launahækkun eða lán. Skuldbreytingu eða hjálp.

Sumir kunna vel að nota þetta verkfæri en hjá öðrum hefur verkfærið verið eyðilagt. Alast upp við að maður eigi ekki að vera með frekju og tilætlunarsemi. Það á ekki að vera til óþæginda eða að ónáða fólk.  Sumum finnst allt í lagi að þrá biðja um sama hlutinn.           11 * nei = já

Stundum þarf að gera það til að mótaðilanum verði ljóst að þetta skiptir mann máli.

Hefjum gönguna til velgengni.

 

Í Ánauð

Fyrstu þrjú þrepin hanga saman og þau eru endurtekin aftur og aftur þangað til að búið er að þjálfa það sem hér er verið að læra.

 

  1. Uppgötva stöðu.

Það ríkir óánægja. Óánægja með eitthvað en það er ekki ljóst hvað það er. Á meðan það er ekki skýrt er ekki hægt að takast á við vandan. Það smá skýrist við það að lenda ítrekað í því sem skapar óánægjuna. Barn biður um nammi og fær stundum já og stundum nei. Það uppgötvar að það er skömmtun á nammi og það er óásættanlegt ástand. Það þarf að taka á þessum vanda.

 

  1. Skoða sig í stöðunni.

Hvenær fæ ég nammi og hvenær fæ ég ekki nammi? Það er nammi á laugardögum, þegar við heimsækjum afa og þegar mamma og pabbi panta barnapíu. Líka þegar mér er illt í maganum, þá fæ ég kók til að koma jafnvægi á magann. Það gengur ekki vel að fá nammi á nammibarnum í matvöruversluninni. Ekki hægt að fá nammi þegar ég er að horfa á sjónvarp rétt fyrir kvöldmat.

 

  1. Reyna að aðlagast.

„Mér er svo illt í maganum“. Þetta þýðir mig langar í kók. Nú hefst leitin að veika blettinum á foreldrunum. Hvað gerist ef ég hendi mér í gólfið fyrir framan nammirekkann í búðinni? Hvað gerist ef ég suða og suða. En ef ég fer í fýlu? Hvernig er veikibletturinn á pabba og hvernig á mömmu?

Á endanum læra börnin að ná því sem hægt er út úr stöðunni. Eru sátt en það varir ekki lengi. Það er ennþá skömmtun og þótt maður fái nammi er það ekki endilega það nammi sem maður vill.

  1. Taka ábyrgð.

Ég vil fá það nammi sem ég vil þegar ég vil og í því mæli sem ég vil. Ég er búin að reyna að ala foreldra mína upp og kenna þeim hvernig þau eiga að versla inn en þau eru ekki að standa sig. Ef þetta á að ganga verð ég að taka málin í mínar hendur og sjá um þetta sjálf/ur.

Nú breytist lífið. Á fyrstu þremur þrepunum var litið á foreldrana sem forðabúr. Athygli var á þeim og hvernig hægt væri að ná meiru út úr þeim. Nú færist athyglin á mann sjálfan og spurning vaknar um hvað maður geti sjálfur gert.  Hvernig verð ég sjálfum mér nógur?

Næstu þrjú þrep hanga saman og eru endurtekin aftur og aftur þangað til maður hittir á það sem virkar. Við gerum tilraunir.

  1. Skoða leiðir.

Hvernig get ég fengið meira? Biðja mömmu að kaupa sjoppu. Stelast í kökuboxið eða stela kexpakka úr búð.  Við höfum samvisku og hendum leiðum sem skapa vanlíðan.

  1. Velja leið.

Hvað með smápeningana sem eru í jakkavasanum hjá pabba. Ætli ég megi fá þá?

  1. Framkvæma.

Ennþá erum við bara með eitt verkfæri. Það að biðja um. Byrjuðum snemma að þjálfa verkfærið og erum stöðugt að verða markvissari. Í byrjun báðum við um þurra bleyju eða brjóstamjólk. Það skildi okkur engin svo við ákváðum að læra tungumálið. Nú notum við það til að biðja um pening. Göngum sæl og glöð út í búð og veljum sjálf hvað við kaupum.

Við erum komin í ánauð hvað varðar fjármál. Öðrum háð um peninga.

Það er lítið hægt að ráðleggja varðandi fjármál á þessu stigi. Það er hægt að hvetja börnin til að biða um og vera ófeimin við það. Kenna þeim að stundum fær maður já og stundum nei. Stundum já en það þurfi að bíða í einhvern tíma. Kenna þeim að nei er eðlilegt og allt í lagi svar. Við getum leyft okkur að biðja þau um ýmislegt. Læra heima og taka til. Þau mega líka stundum segja nei.

Verkfærið að biðja um pening er orðið virkt. Nú þarf að þjálfa það. Það er gert á fyrstu þremur þrepum næsta þroskastigs.